Jörð í hættu!? er nemendastýrt þemaverkefni sem samþættir náttúru- og samfélagsgreinar og er megináhersla lögð á sjálfbæra þróun, umhverfismennt og loftlagsmál.
Verkefnavinnan einkennist af sjálfstæðum vinnubrögðum nemenda, ferli vísinda og skapandi skilum.
Verkefnið er þverfaglegt og tekur mið af hæfniviðmiðum og lykilhæfni Aðalnámskrár frá 2011 sem er byggð á grunnhugmyndum um menntun á 21. öldinni.
Jörð í hættu!? byggist á 5 þemum sem eru loft, nauðsynjar, rusl, vatn og geta til aðgerða.
Verkefnið samanstendur af 5 þemum sem hvert tekur
1-2 vikur (miðað við 6 kennslust. á viku) og líkur með uppskeruhátíð þar sem bestu verkefni annarinnar eru kynnt fyrir foreldrum og nemendum skólans. Verkefnin má taka í hvaða röð sem er en ágætt er að byrja á þemanu Nauðsynjar, því það er hálfstýrt og ljúka verkefninu á Getu til aðgerða sem byggir á hinum verkefnunum.
Gróf tímááætlun hvers þema:
Heimalestur
Könnun forþekkingar 20 mín.
Kveikja 20 mín.
(Stutt kennslumynd með hverju þema og umræður)
Nemendur gera rannsóknarspurningu og áætlun 40 mín.
Frjáls vinna nemenda 5-6x40 mín.
Kynning 40 mín.
Nemendur ákveða hvaða viðfangsefni innan þemans þeir taka og einnig á hvaða hátt þeir vinna það og koma því frá sér. Áhersla er lögð á gagnrýna hugsun, sköpun, frumkvæði og frumleika.
Hvert þema hefur sömu uppbyggingu:
Nemendur vinna í hópum og er það í sjálfsvald kennara sett, hvort hann/hún dragi í hópa, velji í hópa eða leyfi nemendum að ráða. Gott er að blanda þessum aðferðum því markmiðið er einnig að nemendur læri að vinna í fjölbreyttum hópum.
Kennsluaðferð
Verkefnið byggir að hluta til leitaraðferð (inquiry based learning) og er mikið lagt upp úr sjálfstæðum vinnubrögðum nemenda, vísindalegri aðferð og fjölbreyttum leiðum við framsetningu og kynningu verkefna.
Kveikja
Mikilvægt er að fanga athygli og kveikja áhuga nemenda á verkefninu strax á fyrstu metrunum. Hægt er að byrja verkefnið á umræðum og könnun forþekkingar „Er jörðin í hættu?“ eða „Hvað vitum við um jörðina?“. Tilvalið er að horfa á myndbandið Gaia eftir hljómsveitina Amabadama og velta fyrir sér textanum. „Hvað merkir Gaia?“ eða „Um hvað er lagið?“
Hverju þema fylgja stuttar kveikjur,
2-5 mínútna kennslumyndir sem eiga að skapa um ræður og kveikja áhuga nemenda. Veftenglar í lesefni hvers þema eru sumir hverjir mjög áhugahvetjandi. Svo má nota það sem hugann listir!
Nánar um kveikjur hér.
Uppbrot kennslu
Stundum er gott að gera hlé á milli þema, gera tilraun sem tengist viðfangsefninu, fara í vettvangsferð eða horfa á eina góða bíómynd sem tengist viðfangsefninu, t.d. Wall-e , The day after tomorrow eða Before the flood. Skila mætti rökfærsluritunum eða skipuleggja umræður með nemendum um viðfangsefni kvikmyndanna. Gætu atburðir kvikmyndanna átt sér stað í raunveruleikanum? Hvað var óraunhæft?
Verkefnarammi
Nemendur fá verkefnaramma sem hjálpar þeim að þróa verkefnið og skipuleggja sig. Nemendur fylgja vísindalegri aðferð og gera tímaáætlun. Þessu blaði er svo skilað útfylltu í lok verkefnis, sem endar á munnlegri kynning.
Skapandi skil - vinna verkefna og afurðir
Nemendur ákveða með hvaða hætti þeir útfæra afurð verkefnisins. Vinna og afrakstur hefur verið af ýmsu tagi; sumir nemendur hafa búið til líkön, aðrir tónlist, enn aðrir málverk, skúlptúra, myndbönd, heimildamyndir, hannað hluti, samið ljóð, gerst aktivistar, bakað köku sem sýnir sögu jarðar, hannað rannsóknarstofu á mars, byggt hluti í minecraft og margt fleira. Verkefnin eru því algjörlega opin. Nemendur ráða hvert viðfangsefnið er og hvernig þeir gera því skil.
Gott er að fá nemendur til að bera rannsóknarspurningar undir kennara áður þeir sökkva sér í verkefnið. Eina skilyrðið er að endurunnin efni séu notuð í verkefnin, ekki ný. Þó má nota hluti eins og málningu og þess háttar. Markmiðið er að skapa ekki meira nýtt rusl með verkefninu.
Lykilatriði er að deila efninu með öðrum t.d. á samfélagsmiðlum skólans, hengja upp veggspjöld í kjörbúðinni, hafa samband við KrakkaRúv, RúvNúll, tala við fjölskyldu og ættingja o.s.frv. Að auki er verkefnið kynnt á lokakynningu fyrir bekkinn.
Við vinnu afurða er hægt er að styðjast við verkfærakistuna, en varast skal kynna hana í upphafi, svo hún stýri ekki vali nemenda og dragi úr frumleika og sköpun.
Munnleg kynning
Í lok hvers þema kynna nemendur verkefni sín. Alls fá nemendur 5 mínútur til að kynna verkefni sín og sýna afurð. Hafa skal í huga lykilhæfni um tjáningu og miðlun sem og sóknarkvarða um munnlega kynningu.
Námsmat
Námsmat byggir á sóknarkvörðum. Nemendur fá sóknarkvarða afhenta með verkefnarammanum og gott er að renna yfir þá í upphafi. Eftirfarandi er metið: Verkefnið og munnleg kynning, hópavinna og einstaklingsvinna. Nota má sóknarkvarðana sem sjálfsmat eða jafningjamat ef það hentar.
Sóknarkvarðar geta verið með stigum t.d. 1-4 en eru einnig hugsaðir út frá matsviðmiðum A,B,C,D.
Ef gefa á einkunn á skalanum A,B,C,D, má skoða hæfniviðmiðin og útbúa matskvarða út frá þeim.
Ef gefa á einkunn á skalanum 1-10, má gefa verkefninu, hópavinnu og einstaklingsvinnu mismunandi vægi.
Tekið er tillit til einstaklingsvinnu og vinnu nemenda í hópum og þar af leiðandi þurfa einstaklingar í sama hóp, ekki að fá sömu einkunn.
Sóknarkvarðinn um munnlegar kynningar er byggður á marklista frá Ester Ýr Jónsdóttur og Guðmundi Grétari Karlssyni. Sjá hér.
Áskoranir/hindranir
Áskorun kennarans í nemendastýrðu námi felst í því að láta af stjórn og leyfa nemendum að leysa verkefni sín upp á eigin spýtur. Áhersla er lögð á ábyrgð nemenda á eigin námi og er markmiðið að þeir skapi sér þekkingu og læri nýja hæfni í samstarfi við kennarann og samnemendur. Í stað þess að mata nemendur á staðreyndum og að kenna þeim rétt svör, reynir hann að leiðbeina þeim og veita þeim nauðsynleg verkfæri til að nýta við þekkingarleitina. Kennarinn er í raun verkstjóri og leiðtogi sem þarf að vera vakandi fyrir þörfum nemenda og vera sjálfur skapandi og hvetjandi fyrir nemendur.
Einnig er það í verkahring kennarans að skapa góðar námsaðstæður og til að mynda mætti vera með gagnaborð, tölvur og spjaldtölvur til gagns fyrir nemendur (eða bjóða nemendum að nota eigin tæki).
Maður þarf að vera til búinn til að fara út fyrir efnið og það er mikil áskorun að venja sig á að segja já í stað nei. Við þurfum að vera dugleg að setja ábyrgðina yfir á nemendur, þeir eiga til dæmis að koma með efni að heiman, ef á vantar en í kennslustofunni er reyndar gott að hafa gagnabanka sem má ganga í með pappa, málningu, límbyssu o.fl.
Þó að nemendur séu í frjálsri vinnu þarf að gera þeim grein fyrir að þeir megi ekki valsa um allan skólann, til dæmis í sérgreinakennslustofur og sækja sér efni þaðan.
Stundartafla getur verið hindrun og getur komið í veg fyrir að greinar séu kenndar saman, en samt geta kennarar tekið sig saman eins og við gerðum og skipt tímunum á milli sín.
Ekki gefast upp þó á móti blási - nemendur sem hafa alltaf farið eftir fyrirmælum, eiga erfitt með að fara út fyrir rammann. Fyrstu verkefnin geta verið krefjandi fyrir bæði nemendur og kennara en um leið og nemendur skilja vinnuferlið, vilja þeir helst ekki gera annað.
Tækifæri
Nemendur sýna nemendastýrðum verkefnum mikinn áhuga. Hlutdeild þeirra í vali á viðfangsefnum styrkir þá og er hvetjandi.
Ábyrgðartilfinning eykst og nemendur verða sjálfstæðari í vinnubrögðum og virðast yfirfæra nýja færni yfir á önnur verkefni.
Sóknarkvarðarnir gera námið og verkefnin gagnsærri. Nemendur sjá hvernig auka má hæfni sína og ná árangri og telja höfundar verkefnisins að námsmatið sýni raunsærri mynd af hæfni nemenda en tölukerfið.
Í nemendastýrðum verkefnum geta flestir tekið þátt í verkefnum óháð námslegri stöðu og því er auðveldara að ná markmiðum einstaklingsmiðaðs náms. Nemandinn aðlagar verkefnið að sinni getu og margir skína á ólíklegustu sviðum þegar þeir fá frelsi til.
Viðfangsefni verkefnisins nær yfir mikið af hæfniviðmiðum Aðalnámskrár í náttúru- og samfélagsfræðim reynir á og þjálfar lykilhæfni nemenda.