Jörð í hættu!? er nemendastýrt þemaverkefni sem samþættir náttúru- og samfélagsgreinar í unglingadeild. Verkefnið tekur mið af hæfniviðmiðum og lykilhæfni Aðalnámskrár frá 2011 sem byggja á grunnhugmyndum um menntun á 21. öldinni.

Jörð í hættu!? byggist á 5 þemum sem eru Loft, nauðsynjar, Rusl, Vatn og geta til aðgerða.

Öll eru þemun eins uppbyggð; stutt kveikja, umræður, nemendur skipuleggja sig og hanna rannsóknarspurningu og njóta þar leiðsagnar kennara. Nemendur ákveða hvaða viðfangsefni innan þemans þeir taka og einnig á hvaða hátt þeir vinna það og koma því frá sér. Áhersla er lögð á gagnrýna hugsun, sköpun, frumkvæði og frumleika.

Vinna og afrakstur getur verið af ýmsu tagi; sumir nemendur hafa búið til líkön, aðrir tónlist, enn aðrir málverk, skúlptúra, myndbönd, heimildamyndir, hannað hluti, samið ljóð, gerst aktivistar, bakað köku sem sýnir sögu jarðar, hannað rannsóknarstofu á mars, byggt hluti í minecraft og margt fleira. Eina skilyrðið er að endurunnin efni séu notuð í verkefnin, ekki ný. Þó má nota hluti eins og málningu og þess háttar. Markmiðið er að skapa ekki meira nýtt rusl með verkefninu.

Lokahnykkur hvers þema eru munnlegar kynningar viðfangsefna, þar sem nemendahópar kynna verkefni sín og afurðir. Hæfileg kynning er 5 mínútur og styðjast nemendur við sóknarkvarða um munnlegar kynningar.